Staðreyndavakt

Á þessari síðu förum við yfir staðreyndir um netverslunarfrumvarpið svokallaða.

Stendur til að auka aðgengi að áfengi?

Nei. Ekki er lagt til aukið aðgengi að áfengi. Einungis er lagt til að hægt verði að selja áfengi gegnum innlenda netverslun, líkt og hægt hefur verið gegnum erlenda netverslun um árabil.

Þá næði heimild til beinnar sölu á starfsstöð aðeins til smábrugghúsa. Gestir þeirra þyrftu að gera sér sérstaka ferð í smábrugghúsin í þessu skyni, rétt eins og í áfengisverslanir ríkisins. Þá mega aðeins einstaklingar á áfengiskaupaaldri vera þar.

Ófullnægjandi aldurseftirlit yrði refsivert og myndi varða leyfissviptingu samkvæmt lögum. Væri því í raun um stragari löggjöf að ræða en nú gildir, enda gilda engar reglur um leyfissviptingu eða refsingar um erlendar netverslanir.

Er lagt til að leyfa áfengisauglýsingar?

Nei. Ekki yrði kveðið á um heimild til áfengisauglýsinga í frumvarpinu og löggjöf því óbreytt hvað þær varðar.

Munu börn og ungmenni geta keypt áfengi með auðveldari hætti?

Nei. Með frumvarpinu yrði kveðið á um leyfissviptingu og refsiábyrgð ef aldurseftirlit reynist ófullnægjandi. Slíkar reglur gilda ekki um erlendar netverslanir í dag og væri því verið að herða reglur, frekar en að slaka á þeim. Starfsfólk netverslana og smábrugghúsa myndi sinna ströngu aldurseftirliti með sam hætti og starfsfólk ríkisverslana og vínveitingahúsa.

Stendur til að færa
„vín í búðir“?

Nei. Réttara væri að segja að verið væri að færa vín úr búðum. Ekki væri um að ræða heimild til áfengissölu í hefðbundnum verslunum, heldur væri einungis verið að heimila íslenska netverslun til jafns við erlenda, auk þröngrar undantekningar til beinnar sölu á starfsstöð smábrugghúsa.

Kaupendur þyrftu að fara sérstaklega á vef viðkomandi vefverslunar, eða í viðkomandibrugghús, til að kaupa vörur.

Áfengisverslanir ríkisins myndu áfram sitja einar að hefðbundinni verslunarsölu áfengis. Í því samhengi er áhugavert að hafa í huga að ríkisverslunum hefur fjölgað verulega undanfarin ár og eru þær gjarnan staðsettar í verslunarkjörnum og annars staðar í alfaraleið, með tilteknu auknu aðgengi og sýnileika áfengis.

Ætti ekki frekar banna erlendar netverslanir heldur en að leyfa íslenskar?

Nei. Alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga samkvæmt EES-samningnum leiða til þess að okkur ber að tryggja frjálst flæði vöru og þjónustu. Okkur ber því að heimila erlendum netverslunum að bjóða þjónustu sína hér. Einkasala ÁTVR og bann við íslenskri netverslun byggir á þröngri undantekningarheimild, en ljóst má telja að frekari undantekningar yrðu ekki veittar.

Ætli Íslendingar að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar áfram eru einu möguleikarnir því áframhaldandi bann við íslenskri netverslun, með tilheyrandi ójafnræði, eða jafnræði þar sem íslenskir og erlendir aðilar sitja við sama borð.  

Ætti ekki að einblína á forvarnir og lýðheilsusjónarmið frekar en þetta mál?

Ekki er lagt til aukið aðgengi að áfengi, heldur einungis að íslenskir aðilar sitji við sama borð og erlendir aðilar hafa gert um árabil. Lögð er til refsiábyrgð og leyfissvipting er ströngu aldurseftirliti er ekki sinnt.

Við núgildandi lagaramma rennur stór hluti tekna af áfengissölu til erlendra aðila sem borga skatt í útlöndum. Ef stærra hlutfall rynni til íslenskra skattgreiðenda mætti m.a. nota hinar auknu skatttekjur til að fjármagna fjölbreytt forvarnar- og lýðheilsustarf.

Er þetta virkilega forgangsmál?

Nei. Málið hefur ekki verið sérstakt forgangsmál hjá dómsmálaráðherra, enda hefur það verið lagt fram samhliða fjölda annarra mála.

Aftur á móti má hafa í huga að á þriðja tug handverksbrugghúsa tryggja í dag um 200 manns störf í öllum landshlutum, þ.á.m. í brothættum byggðum. Handverksbrugghúsin hafa hingað til reitt sig að miklu leyti á sölu til erlendra ferðamanna, sem nú eru á bak og burt. Handverksbrugghúsin fá að jafnaði takmarkað pláss í ríkisbúðunum. Með því að heimila netverslun og beina sölu á framleiðslustað mætti því beinlínis bjarga fjölda starfa og frumkvöðlafyrirtækja um allt land, auk þess að auka fjölbreytni í framleiðslu á íslenskum gæðavörum.

Að sama skapi tryggja mörghundruð veitingahús fjölda fólks atvinnu, en nú kreppir verulega að vegna hruns í ferðaþjónustu í heimsfaraldrinum. Með því að heimila veitingahúsum með heimsendan mat að selja vel valin gæðavín með í gegnum netverslun mætti í einhverjum tilfellum auka veltuna nægilega til þess að talsverður fjöldi geti haldið störfum sínum áfram.Málið snýr því ekki aðeins um jafnræði og viðskipta- og valfrelsi, heldur einnig um atvinnusköpun og byggðastefnu.