Helstu upplýsingar

Um hvað snýst málið?

Málið snýst um framlagningu og framgöngu frumvarps um aukið jafnræði á áfengismarkaði.

Lagt er til að íslenskum aðilum verði leyft að selja áfengi í netverslun til Íslendinga á löglegum áfengiskaupaaldri, rétt eins og erlendir aðilar hafa getað um árabil. Sömuleiðis er lagt til að smábrugghúsum verði heimilað að selja vörur sínar á framleiðslustað.

Auk þess að vera eðlilegt frelsismál er málið einnig gríðarlega mikilvægt fyrir fjölda veitingastaða, frumkvöðlafyrirtækja, starfsfólks og sveitarfélaga um allt land.

Hvers vegna er málið mikilvægt?

Á þriðja tug íslenskra handverksbrugghúsa tryggja um 200 manns störf í sinni heimabyggð og skila tugum milljóna í skatttekjur á ári, með framleiðslu og sölu á vönduðum íslenskum vörum. Brugghúsin eru auk þess mikil lyftistöng fyrir lítil samfélög í nærumhverfi sínu, sem sum hver teljast til brothættra byggða.

Brugghúsin hafa takmarkað aðgengi að ÁTVR með vörur sínar, auk þess sem þau reiða sig að miklu leyti á heimsóknir erlendra ferðamanna. Ef brugghúsin vilja selja vörur sínar í netverslun þarf fyrst að flytja þær til útlanda og senda þær svo strax aftur heim í gegnum erlenda netverslun, með tilheyrandi kolefnisspori.

Með heimild til beinnar sölu á framleiðslustað og sölu í íslenskri netverslun mætti standa vörð um 200 störf og afkomu lítilla frumkvöðlafyrirtækja í brothættum byggðum.Hið sama á við um mörghundruð veitingahús sem sprottið hafa upp í Reykjavík og víðar. Veitingahúsin tryggja gríðarstórum hópi fólks atvinnu, skila mörghundruð milljónum í beinar og óbeinar skatttekjur og stuðla að fjölbreyttri og skemmtilegri menningu.

Rekstur flestra veitingahúsa hefur orðið fyrir verulegu höggi vegna COVID-19. Með því að heimila þeim sölu á vel völdum gæðavínum og bjórum í netverslun samhliða pöntuðum mat mætti víða auka veltuna nægilega til að bjarga tekjum og störfum sem ella myndu tapast.

Er þetta forgangsmál?

Málið sem slíkt er ekki sérstakt forgangsmál umfram önnur. Það er aftur á móti mikilvægt í því skyni að standa vörð um mörghundruð störf, afkomu íslenskra frumkvöðlafyrirtækja, atvinnu og tekjur lítilla sveitarfélaga og áframhaldandi íslenskar skatttekjur.

Í frumvarpi dómsmálaráðherra er lagt til að refsiábyrgð og leyfissvipting liggi við ófullnægjandi aldurseftirliti í netverslun og á framleiðslustað. Engar slíkkar sérreglur gilda um erlendar netverslanir í dag.

Er því um að ræða enn meiri takmörkun á aðgengi ungs fólks að áfengi, en ekki aukningu. Þá mætti nýta auknar íslenskar skatttekjur í enn öflugra forvarnar- og lýðheilsustarf. Slíkt starf er erfitt að fjármagna ef tekjur af áfengisverslun streyma í síauknum mæli úr landi.

Hverjir halda úti þessum vef?

Vefnum er haldið úti af frjálslyndum hópi áhugafólks um jafnræði í áfengisverslun.

Hvar get ég nálgast frekari upplýsingar?

Frekari upplýsingar um mikilvægar staðreyndir má finna í staðreyndavaktinni